Leikmannastefna 2004

Leikmannastefna íslensku Þjóðkirkjunnar 2004

Frá Leikmannastefnu 2004Átjánda leikmannastefna Íslensku þjóðkirkjunnar var haldinn 1. og 2. maí í safnaðarheimili Glérárkirkju á Akureyri. Biskup Íslands Herra Karl Sigurbjörnsson setti ráðstefnuna og að henni lokinni hófust fundarstörf.

Samband ríkis og kirkju, fræðslumál og æskulýðsmál voru meðal þess sem fjallað var um í erindum á leikmannastefnu 2004.

Biskup Íslands, Herra Karl Sigurbjörnsson flutti erindi undir yfirskriftinni „Ríki og kirkja og trú og samfélagið.” Halldór Reynisson, verkefnastjóri fræðslu og upplýsingamála Biskupsstofu, kynnti drög að fræðslustefnu þjóðkirkjunnar undir yfirskriftinni: „Frá vöggu til grafar.”

Guðmundur Þór Guðmundsson framkvæmdastjóri kirkjuráðs flutti erindið „Framtíð leikmannastefnuna í ljósi afgreiðslu kirkjuþings 2003.” Stefán Már Gunnlaugsson, fræðslusviði Biskupsstofu, fjallaði um æskulýðsmál í erindi sínu „Æskulýðsstarf innan kirkjunnar og hvernig má efla það.” Að lokum flutti Jóhann Þorsteinsson, æskulýðsfulltrúi KFUM, og K erindi um æskulýðsstarf innan KFUM, og K.

Meðal annarra ræðumanna var Jakob Björnsson, fyrsti varaforseti bæjarstjórnar Akureyrar. Bauð hann þátttakendur velkomna á leikmannastefnu á Akureyri. Einnig tók til máls Sigríður M. Jóhannsdóttir, ritari sóknarnefndar Glerárkirkju. Bauð hún þátttakendur velkomna í Glerárkirkju fyrir hönd sóknarnefndar og fræddi þá um sögu Glerárprestakalls. Voru þetta allt áhugaverð og fróðleg erindi.

Leikmannastefnan tók undir nýlega samþykkt kirkjuráðs varðandi þjóðgarðinn á Þingvöllum. Sömuleiðis harmaði leikmannastefnan vitfirrtar afleiðingar átakanna í Írak og hvarvetna annars staðar í heiminum þar sem misbeiting valds og ofbeldis ríkir.

Leikmannastefnan ályktaði einnig um að leggja þyrfti aukna áherslu á símenntun leikmanna og óvígðs starfsfólks kirkjunnar og vísar til starfsreglna þar um.

Þátttakendur á leikmannastefnunni voru mjög ánægð með allan aðbúnað og móttökurnar hjá heimafólki á Akureyri.

Ályktanir leikmannastefnu:

  1. Ályktun varðandi fræðslu
  2. Ályktun varðandi Írak
  3. Ályktun varðandi Þingvöll

Fljótlega verða erindi sem flutt voru á Leikmannastefnu 2004 sett á vefinn áhugasömum til nánari glöggvunar.

Magnhildur Sigurbjörnsdóttir, verkefnastjóri