Leikmannastefna 2005

Leikmannastefna Þjóðkirkjunnar var sett 23. júní og var yfirskrift hennar „Safnaðarstarf í dreifbýli og þéttbýli. Hvers væntum við?” Erindi fluttu Bergur Torfason, Hermann Jónasson, Lárus Jónsson, sr. Örn Bárður Jónsson, sr. Sigurður Árni Þórðarson og dr. Guðmundur K. Magnússon, prófessor. Í þeim kom fram sá aðstöðumunur sem söfnuðir í dreifbýli og þéttbýli búa við. Í umræðum kom fram nauðsyn þess að líta til breyttrar þjóðfélagshátta, meðal annars hvað varðar samgöngur til að þeir starfskraftar og fjármunir, sem í boði eru nýtist sem best.

Leikmannastefnan samþykkti ályktun þess efnis að beina því til kirkjuþings að settur verði á fót starfshópur til þess að kanna möguleika á því að setja upp starfsstöðvar (kirkjusstöðvar) þar sem það á við, þar sem 2 – 3 prestar, ásamt djákna eða djáknum, myndu þjóna stærri landssvæðum, með tilliti til til landfræðilegra staðhátta.

Meðferð skilvirkari agavandamála

Á stefnunni var einnig svohljóðandi ályktun samþykkt samhljóða:

“Leikmannastefna 2005 beinir þeirri tillögu til Kirkjuráðs og Kirkjuþings 2005, að það beiti sér fyrir því, að meðferð agavandamála verði skilvirkari og fljótvirkari en nú er, þannig að safnaðarstarf þurfi ekki að líða lengi vegna erfiðra vandamála, sem upp kunna að koma milli presta og safnaða. Leikmannastefnan bendir á, að hugsanleg lausn vandans sé að öll vafaatriði varðandi húsbóndavaldið sé ljós, jafnframt því sem próföstum sé veitt vald til þess að gefa fyrstu áminningu. Ef þetta dugar ekki og þegar sáttatilraunir hafa verið reyndar til þrautar, sé unnt að vísa málum til svokallaðrar “aganefndar” til meðferðar, sem aðstoði biskup við lausn viðkomandi máls.

Varðandi stöðu djákna innan kerfisins er brýnt að skilgreint sé hvar húsbóndavaldið sé varðandi störf þeirra og ábyrgð.”

Greinar af leikmannastefnu 2005

Helgi K. Hjálmsson, formaður Leikmannaráðs: Skýrsla og erindi
Fundargerð 19. Leikmannastefnu
Hermann Jónasson: Kirkja í dreifbýli og þéttbýli
Bergur Torfason: Safnaðarstarf í þéttbýli og dreifbýli
Lárus Þ. Jónsson: Erindi