Ályktun um kirkju og skóla

Leikmannastefna þjóðkirkjunnar skorar á mannréttindaráð Reykjavíkurborgar að falla frá tillögu sinni um breytingar á fyrirkomulagi samskipta skóla borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög

Tuttugasta og fimmta leikmannastefna þjóðkirkjunnar, sem haldin var í safnaðarheimili Árbæjarkirkju laugardaginn 2. apríl 2011, mótmælir tillögu mannréttindarráðs Reykjavíkurborgar frá 12. október í fyrra, um samskipti skóla borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög.

Í umræddri tillögu er m.a. staðhæft að skólastarf í grunnskólum Reykjavíkur fari úr skorðum á haustin í einn til tvo daga vegna fermingarfræðslu kirkjunnar og þess vegna þurfi að hætta samstarfinu.

Leikmannastefnan heldur því fram að þetta sé óréttmæt fullyrðing. Í úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu segir að það brjóti ekki í bága við almenn mannréttindi og ekki sé um mismunun að ræða þótt trúfélög séu í samstarfi við leik- og grunnskóla enda sé samstarfinu ávallt stýrt af viðkomandi skólayfirvöldum.

Leikmannastefnan skorar á mannréttindaráð Reykjavíkurborgar að falla frá umræddri tillögu og slá þess í stað skjaldborg um rétt foreldra og barna til trúfrelsis skv. 14. og 29. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Næg er sú ókyrrð, sem nú ríkir í skólamálum borgarinnar, þótt mannréttindaráð bæti ekki um betur með rofi á farsælu og sögulegu samstarfi skóla við trúar- og lífskoðunarfélög með umræddri breytingartillögu sinni.

Reykjavík 2. apríl 2011