Handbók/Drög

Handbók íslensku þjóðkirkjunnar

Handbókarnefnd

Handbókin á þjónustuvef kirkjunnar og til umfjöllunar á Prestastefnu 2016

Handbækur kirkna eru stöðugt í skoðun. Svo á við um Handbók íslensku kirkjunnar frá 1981 og hefur formleg endurskoðun staðið yfir undanfarin ár og áratugi. Tvívegis hefur Handbókin verið til umræðu á prestastefnum með formlegum hætti og enn á ný er Handbókin til umfjöllunar á prestastefnu. Handbókarnefnd hefur unnið að undirbúningi málsins ásamt biskupi og starfsfólki Biskupsstofu.

Biblían, Handbókin og Sálmabókin eru grundvallarbækur í lífi safnaðanna og fylgjast að. Ný þýðing Biblíunnar kom út 2007. Ný sálmabók mun líta dagsins ljós að ári, á siðbótarárinu mikla 2017. Handbókarnefnd vonast til að unnt verði að kynna nýja Handbók þá eins og biskup Íslands hefur lagt til.

Helgisiðir kirkjunnar skulu ræddir á prestastefnu áður en þeir koma til endanlegrar afgreiðslu á kirkjuþingi, eins og segir í 20. gr. þjóðkirkjulaganna: Samþykktir um kenningarleg málefni, guðsþjónustuhald, helgisiði, skírn, fermingu og altarissakramenti verða að sæta umfjöllun prestastefnu áður en þær hljóta endanlega afgreiðslu á kirkjuþingi.

Á prestastefnu 2016 í apríl n.k. gefst mikilvægt tækifæri til að ræða um Handbókina, leggja mat á núverandi Handbók, ræða hvaða grundvallarþættir það eru sem hafa sístæða stöðu, áherslur sem nú eru uppi og um tillögur sem fram koma, með það að markmiðið að auka gildi helgisiðanna sem er jú uppistaða Handbókarinnar. Þá gefst tækifæri til að ræða um einstaka athafnir og um orðalag.

Ýmislegt efni hefur bæst við sem eðlilegt er að verði í næstu útgáfu Handbókar. Annað má e.t.v. fella á brott. Með nútímatækni er rétt að velta upp hvað eigi heima í prentaðri útgáfu, og hvað gæti verið aðgengilegt á netinu eða með öðrum hætti. Þar má nefna athafnir sem eru ekki tíðar í daglegu lífi safnaða eins og kirkjuvígslu. Þá hefur handbókarnefnd rætt hvort ætti að gefa út sérstaka Messubók, og svo aðra sem inniheldur kirkjulegar athafnir og annað helgihald.

Á preststefnunni 2016 verður kynning á stöðu endurskoðunar Handbókarinnar, en síðan er gefinn góður tími í hópavinnu. Prestar og djáknar sem sækja prestastefnuna þurfa að skrá sig í hópana sem fjalla um mismunandi efni Handbókarinnar.

Margt er í gangi innan safnaða er varðar nýjungar í helgisiðum, mismunandi guðsþjónustuform og breytingar við einstaka athafnir sem þarf að taka til skoðunar og umræðu innan kirkjunnar. Helgisiðir snerta líf allra safnaða og birtast í orði og atferli þegar söfnuðurinn kemur saman til helgihalds. Því er rétt og eðlilegt að sóknarbörn innan kirkjunnar fái að tjá sig um helgihaldið eins og það birtist í Handbókinni og hafi áhrif á inntak bókarinnar og þar með helgisiðina. Besta leiðin til þess er að ræða saman innan safnaðanna, bæði um núverandi form, eins og messunnar, og eins með því að prófa og meta eitthvað af þeim tillögum sem fram hafa komið á undanförnum árum og birtast hér að nokkru leyti.

Núgildandi Handbók íslensku þjóðkirkjunnar sem er frá 1981 er ásamt tillögum sem handbókarnefnd hefur tekið saman, hér með aðgengilegar á netinu á þjónustusíðu kirkjunnar, þar sem þau sem hafa aðgang geta lesið þær og komið að sínum ábendingum. Að þessu sinni hefur verið opnað fyrir aðgang presta og djákna, sem eru í þjónustunni og eiga rétt á að sækja prestastefnu 2016. Seinna verður svo opnað fyrir ábendingar frá fleirum.

Nefndin telur mikilvægt að sem flestir nýti sér þetta tækifæri sem gefst hér á þjónustusíðunni og láti í ljós skoðanir sínar og komi með tillögur og ábendingar. Líka þeir sem ekki geta sótt prestastefnuna. Umræðan mun halda áfram eftir prestastefnuna en ekki hefur verið ákveðið hvenær endurskoðuninni lýkur formlega. Önnur prestastefna verður að taka málið til afgreiðslu áður en endanlegar tillögur fara til kirkjuþings til samþykktar. Hvort það næst á næsta ári, 2017, er óljóst.

Hér fyrir neðan er að finna  núverandi Handbók og tillögur frá nefndinni. Innihald Handbókar er skipt upp i níu þætti, en þátttakendur á prestastefnu eiga einmitt að velja sér hópa sem fjalla um eftirtalin efni.

Ath. Hver og einn getur komið að sínum tillögum og hugmyndum, án þess að sjá hvað aðrir hafa ritað. Seinna er gert ráð fyrir að birta allar ábendingarnar. Ábendingar eru flokkaðar bæði eftir þáttum og hvers eðlis ábendingin er til að auðvelda úrvinnslu. Gott er að vitna í viðkomandi línunúmer í ábendingum.

 

     a.  Grundvallarspurningar um helgihald og opinbera trúariðkun

Almennar ábendingar |   Ábendingar og tillögur um einstaka liði, svo og orðalag.

     b.  Messan fyrir predikun og aðrar guðsþjónustur

Almennar ábendingar   |   Ábendingar og tillögur um einstaka liði, svo og orðalag.

     c.  Messan eftir predikun og aðrar guðsþjónustur

Almennar ábendingar   |   Ábendingar og tillögur um einstaka liði, svo og orðalag.

     d.  Skírnin og skírnarguðsþjónustur

Almennar ábendingar   |   Ábendingar og tillögur um einstaka liði, svo og orðalag.

     e.  Fermingin

Almennar ábendingar   |   Ábendingar og tillögur um einstaka liði, svo og orðalag.

     f.  Hjónavígslan

Almennar ábendingar   |   Ábendingar og tillögur um einstaka liði, svo og orðalag.

     g.  Útförin

Almennar ábendingar   |   Ábendingar og tillögur um einstaka liði, svo og orðalag.

     h.  Perikópur og predikunartextar, (Endurskoðun textaraðar A og B)

Almennar ábendingar   |   Ábendingar og tillögur um einstaka liði, svo og orðalag.

      i.  Bænir

Almennar ábendingar   |   Ábendingar og tillögur um einstaka liði, svo og orðalag.

 

F.h. handbókarnefndar

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, formaður nefndarinnar