Laust starf

30. apríl 2024

Laust starf

Háteigskirkja

Biskup Íslands auglýsir starf prests til þjónustu við Háteigsprestakall í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf 1. ágúst næst komandi.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021- 2022  og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Prestakallið er ein sókn, Háteigssókn, sem er víðfeðm sókn með um 12.500 íbúa.

Sóknarmörk fylgja helstu stofnbrautum í Hlíðunum og Holtunum.

Myndarlegt safnaðarheimili er við kirkjuna.

Þar er góð starfsaðstaða fyrir prestana og annað starfsfólk.

Prestarnir eru með skrifstofur sínar og viðtalsherbergi á sérstökum gangi á neðri hæð safnaðarheimilisins.

Við kirkjuna eru tveir öflugir kórar, Kordía kór Háteigskirkju og Perlukórinn, barna – og unglingakór Háteigskirkju.

Prestar Háteigskirkju skiptast á að þjóna við helgihaldið og organisti annast oftast undirleik.

Háteigskirkja tilheyrir Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og tekur virkan þátt í samstarfi á vettvangi prófastsdæmisins.

Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir allar umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.

Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.

Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol. prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni – biskupsstofu.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021,  kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um presta.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall.

Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Sr. Bryndís Malla Elídóttir, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 892 2901 eða á netfangið bryndis.el@kirkjan.is.

Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni – biskupsstofu í síma 528 4000 eða á netfangið gyda@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 14. maí 2024.

Sækja ber rafrænt um starfið hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar, www.kirkjan.is, að liðnum umsóknarfresti.

Hér  er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.

Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.


Háteigsprestakall – þarfagreining.

Sóknin, Háteigssókn, er víðfeðm sókn með um 12.500 íbúa.

Sóknarmörk fylgja helstu stofnbrautum í Hlíðunum og Holtunum eins og sjá má á mynd hér fyrir neðan.

Sóknarbörn eru um 4200, flest eru í hópi þeirra sem komnir eru yfir fertugt.

 

Kirkjan og safnaðarheimilið – starfsaðstaðan.

Arkitekt Háteigskirkju var Halldór H. Jónsson.

Kirkjan var vígð af dr. Sigurbirni Einarssyni biskupi Íslands á aðventu árið 1965 þótt ýmsu væri enn ólokið.

Kirkjan fagnar því 60 ára vígsluafmæli kirkjunnar á næsta ári.

Myndarlegt safnaðarheimili er við kirkjuna.

Þar er góð starfsaðstaða fyrir prestana og annað starfsfólk.

Prestarnir eru með skrifstofur sínar og viðtalsherbergi á sérstökum gangi á neðri hæð safnaðarheimilisins.

Annað starfsfólk er flest einnig með sína aðstöðu á neðri hæð safnaðarheimilisins.

Á efri hæðinni er fallegur veislusalur sem tekur um 120 manns í sæti og er hann talsvert notaður í tengslum við athafnir í kirkjunni svo og til námskeiða og funda.

 

Starfsfólk.

Við Háteigskirkju starfa tveir prestar og organisti er í 100% starfi.

Kirkjuhaldari er í 100% starfi ásamt kynningarfulltrúa í 50% starfi og gjaldkera og kirkjuverði í 25% starfi.

Auk þeirra eru ræstingafólk og umsjón með veislusal kirkjunnar í verktöku.

Fjölskylduþjónusta þjóðkirkjunnar er með aðstöðu í kirkjunni.

 

Starfið í kirkjunni.

Við kirkjuna eru tveir öflugir kórar, Kordía kór Háteigskirkju og Perlukórinn, barna – og unglingakór Háteigskirkju.

Auk þess leigja nokkrir kórar æfingaaðstöðu í kirkjunni.

Gallerí Göng eru listagallerí í ganginum sem tengir kirkjuna og safnaðarheimilið.

Þar eru haldnar fjölbreyttar listsýningar allan ársins hring.

Gangurinn með kirkju og safnaðarheimili mynda gott skjól í fallegum garði við kirkjuna þar sem setjast má niður og njóta kyrrðar og samveru.

Í Háteigskirkju er messað alla sunnudaga kl. 11:00.

Bænastundir eru á miðvikudögum.

Yfir vetrartímann eru Gæðastundir á þriðjudögum og foreldramorgnar á miðvikudagsmorgnum.

Helgistundir eru í dagdvöl fyrir heilabilaða í Hlíðarbæ einu sinni í mánuði, auk þess sem íbúakjarnar eldri borgara í Bólstaðarhlíð og Lönguhlíð eru heimsóttir mánaðarlega.

Prestar Háteigskirkju skiptast á að þjóna við helgihaldið og organisti annast oftast undirleik.

Háteigskirkja tilheyrir Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og tekur virkan þátt í samstarfi á vettvangi prófastsdæmisins.

 

Einkunnarorð

“Sæl og blessuð” eru einkunnarorð Háteigskirkju frá árinu 2023 og eiga þau bæði við um kirkjuna og þau sem hún þjónar.

Þessi fallega gamla íslenska kveðja er ósk og bæn um blessun, árnað, farsæld og hamingju til handa þeim sem kveðjunni er beint að.

Sú er ósk Háteigskirkju öllum til handa.

 

Áhersla næstu ára og í ráðningu prests við kirkjuna:

Hin fallega Háteigskirkja hýsir fjölbreytta starfsemi.

Fyrst og fremst er starfið boðun fagnaðarerindis á fjölbreyttan hátt fyrir alla aldurshópa.

 


Þau verkefni sem lögð verður áhersla á næstu ár eru:

Að efla innra starf kirkjunnar með fjölbreyttum hætti fyrir alla aldurshópa, með sérstakri áherslu á fjölskyldustarf, þar sem skapandi hugsun leitar margra leiða til að laða fólk að kirkjunni.

Að byggja á öflugri fermingarfræðslu sem verið hefur ein af stoðum starfsins í Háteigskirkju, til að fá ungt fólk til að sækja kirkjuna sína áfram og fá áhuga á að starfa í kirkjunni til framtíðar.

Að horfa til framtíðar með eflingu kirkjunnar í sókninni og samfélaginu.

Að vera tilbúinn til að nýta til dæmis 60 ára afmælisár kirkjunnar ásamt öðru starfsfólki og sóknarnefnd til að vekja athygli íbúa í sókninni á kirkjunni og starfi hennar.

Nýr prestur mun leiða þessa starfsþætti ásamt öðru starfsfólki, en þarf jafnframt að geta sýnt frumkvæði og nýbreytni í starfi sínu.

Óskað er eftir öflugum og sjálfstæðum einstaklingi með skýra sýn og hæfni til að boða kristna trú skýrt og lifandi.

Presturinn þarf að geta gengið inn í hefðbundið helgihald Háteigskirkju, en vera jafnframt tilbúinn að setja sitt mark á það.

Presturinn þarf að hafa til að bera góða samskiptahæfni, frumkvæði og skipulögð vinnubrögð.

Hann þarf að vera tilbúinn til að vera hluti af öflugu teymi þeirra sem unna Háteigskirkju, fólkinu sem vinnur í Háteigskirkju, sóknarnefndinni og fólkinu í sókninni.


slg



Myndir með frétt

  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samstarf

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Auglýsing

Háteigskirkja

Tíu sækja um Háteigsprestakall

17. maí 2024
...umsóknarfrestur rann út 14. maí
Digraneskirkja

Níu umsóknir bárust

15. maí 2024
...um Digranes- og Hjallaprestakall