Sóknargjöld

Sóknargjöld

Spurt og svarað um sóknargjöld

Sóknargjöld eru félagsgjöld, sem ríkið innheimtir og skilar til safnaða þjóðkirkjunnar og skráðra trú og lífsskoðunarfélaga. Sóknargjöld sem greidd eru til þjóðkirkjunnar renna beint til þess safnaðar sem greiðandi tilheyrir. Þau renna hins vegar hvorki til þess að standa straum af kostnaði við yfirstjórn kirkjunnar né til að kosta prestsþjónustuna í landinu.
Sóknargjöld standa undir þjónustu safnaðanna. Þau eru notuð til að greiða laun starfsmanna sókna t.d. organista, kirkjuvarða, djákna, ræstitækna, starfsfólks í barna- og, æskulýðsstarfi og öðru kirkjustarfi. Misjafnt er milli safnaða hversu margt launað starfsfólk starfar þar. Sóknargjöld fara einnig í allan rekstur húsnæðis kirkjunnar t.d. viðhald á kirkjum, rafmagn og hita og annan kostnað sem fellur til. Þá fara sóknargjöldin enn fremur í kaup á því sem nota þarf við starf kirkjunnar t.d. efniskostnað við barna- og æskulýðsstarf, fullorðinsstarf, eldriborgarastarf og annað kirkjulegt starf. Messukaffi er oftast greitt af sóknargjöldum sem og aðrar veitingar sem boðnar eru. Í ákveðnum tilvikum fara sóknargjöld í að kosta tiltekna viðburði, t.d. fyrirlestra um ákveðin málefni, ferðakostnað eða annaðslíkt.
Sóknargjöldin eru fyrir árið 2024 kr. 1192 á mánuði.

Ef farið væri eftir lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987, hefðu sóknargjöldin árið 2018 átt að vera um 1.556 kr. á mánuð

og 1.649 kr. árið 2019, sóknargjöld ættu að vera árið 2023 um 2010 krónur.

Á vef Fjársýslu ríkisins má sjá upphæð sóknargjalda.
Uppgjör sóknargjalda 2021
Sóknargjöld eiga upphaf sitt í tíundargreiðslunum 1096, fyrstu skattalöggjöf á Íslandi. Þar var gert ráð fyrir að fjórðungur tíundargreiðslna færi í viðhald kirkju, fjórðungur til presta, fjórðungur til biskupsstóls og fjórðungur til þurfamanna. Í tíunda kafla Íslendingabókar segir Ari fróði að ólíkt mörgum öðrum löndum hafi tíund verið tekinn upp með miklum friði á Íslandi.

Ríkið tók yfir innheimtu sóknargjalda árið 1988 samhliða innleiðingu staðgreiðslu. Þau umskipti fólu m.a. í sér að lagður var á einn tekjuskattur til ríkisins sem komí stað blandaðrar innheimtu tekjustkatts og ýmissa annarra lögbundinna gjalda, þ.á m. sóknargjalds.

Markmið löggjafans með setningu nýrra laga um sóknargjöld árið 1987 var að tryggja trúfélögum óbreyttar tekjur af sóknargjöldum við þær breytingar sem urðu á innheimtu opinberra gjalda með staðgreiðslukerfinu. Í umræðu um frumvarpið sem var samþykkt samhljóða athugasemdarlaust sagði þáverandi kirkjumálaráðherra:

"Ég vil af því tilefni taka alveg skýrt fram að söfnuðir þjóðkirkjunnar og önnur trúfélög hafa fram til þessa haft sjálfstæðan tekjuskatt og í frv. er einungis gert ráð fyrir að þau hafi hann áfram en með öðrum hætti en verið hefur vegna þeirrar einföldunar á skattakerfinu sem staðgreiðslan felur í sér."


Lög um sóknargjöld: https://www.althingi.is/lagas/nuna/1987091.html
Uppgjör sóknargjalda frá Fjársýslu ríkisins: https://www.fjs.is/utgefid-efni/soknargjold/

Saga sóknargjaldanna, grein eftir Dr. Sigríði Guðmarsdóttur: https://sigridur.org/2012/04/18/saga-soknargjaldanna/
Greinagerð starfshóps um fjárhagsleg málefni þjóðkirkjunnar og safnaða hennar frá Innanríkisráðuneyti: https://www.stjornarradid.is/media/innanrikisraduneyti-media/media/frettir-2014/Skyrsla-starfshops-um-fjarhagsleg-malefni-kirkjunnar-juli-2014.pdf